Þarf ríkið að sinna þessu ?

Höf. 16, 5, 2015 0 , Permalink 0

Er það vikilega svo að ekki sé hægt að sinna slátrun dýra án eftirlits opinberra starfsmanna? Hvernig má það vera að kjötkraftur, sósur og ýmiss annar pakkamatur verður ekki fluttur inn án eftirlits og uppáskriftar starfsmanna Matvælastofnunar – og það vörur framleiddar í ESB löndum sem sjálf búa við regluverk á sterum.

Höldum við virkilega að fyrirtæki á samkeppnismarkaði þurfi opinbera starfsmenn til að sinna framleiðslu sinni með tilhlýðilegum hætti og samkvæmt lögum og reglum? Er líklegt að stjórnendum og starfsfólki fyrirtækja í matvælaframleiðslu sé svo nákvæmlega sama um viðskiptavini sína? Að meðferð dýra og dýraafurða yrði með allt öðrum hætti án eftirlits opinberra starfsmanna?

Og ef eftirlits er svona mikil þörf, hvers vegna þarf þá rándýra opinbera stofnun til að sinna því? Hver grætur Bifreiðaeftirlit ríkisins? Markaðurinn sinnir margskonar eftirlitsstörfum og getur sinnt þeim eins vel, og líklega betur, en hið opinbera. Opinberan rekstur skortir allan hvata til að gera hlutina með ódýrara hætti, gera þá betur, taka upp og þróa nýjar starfsaðferðir – lækka kostnað án þess að fórna gæðum vöru eða þjónustu.

Í kjölfar þessa verkfalls er mikilvægt að endurskoða allan eftirlitsiðnað á vegum ríkis og sveitarfélaga með tvennt í huga; að skoða hvort ítrasta þörf fyrir allt þetta eftirlit, og ef svo er, þarf þá opinbera starfsmenn til að sinna því. Mun ólíklegra er að verkföll valdi jafn miklu tjóni þegar nokkur fyrirtæki keppa á markaði um að sinna eftirliti sem þessu.

Birt á Eyjunni samhliða birtingu á skafti.is

Comments are closed.

%d bloggers like this: