Hvern langar ekki til San Francisco? Svo ekki sé talað um langa ferð til Kanada? Eða bara stutta til Amsterdam? Og allt „ókeypis”. Embættis- og stjórnmálamenn eru duglegir að ferðast á kostnað skattgreiðenda. En hvaða erindi eiga stjórnarmenn Bílastæðasjóðs til San Francisco?
Úr frétt Morgunblaðsins í gær um fyrirhugaða ferð fulltrúa Bílastæðasjóðs í haust:
„Þetta er það sem ráðin hafa verið að gera, skóla- og frístundaráð var að koma frá Kanada úr svona kynnisferð og menningar- og ferðamálaráð fór til Amsterdam í haust. Það skiptir máli á fyrri hluta kjörtímabils að ná saman hópnum um einhverja þekkingu” segir Sóley (Tómasdóttir).
Þetta er svona hópefli með „einhverja” þekkingu að markmiði, allt í okkar boði. Vonandi koma stjórnarmenn til baka uppfullir af þekkingu um gjaldskyldu, stærð bílastæða og annað það sem að gagni má koma.
Jafnvel styrkur Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar upp á 800.000.- krónur til „kynfræðslu pörupilta” verður skynsamlega ráðstöfun almannafjár í samanburði við þetta bruðl.
En virðingarleysi íslenskra stjórnmála- og embættismanna fyrir skattfé almennings verður sífellt augljósara, enda geta þeir skákað í því skjólinu að aðhaldið er ekkert.
Upphaflega birt á Eyjunni 29. mars 2015