Ríkisskattstjóri leggur fram álagningaskrána á morgun. Hefst nú það árvissa tímabil þar sem landsmenn, sem af því hafa gaman, geta skoðað álagða skatta samborgara sinna og spáð í tekjur þeirra út frá því. Og fjölmiðlar beinlínis gera út á herlegheitin.
Af þessu tilefni er í Viðskiptablaðinu í dag viðtal við Hörð Helga Helgason, lögmann, og fyrrum forstjóra Persónuverndar, sem telur nauðsynlegt að láta reyna á réttmæti þess að birta álagningaskrána. Hörður segir m.a.:
Ég hef ekki séð neina fræðimenn taka á því hvort það séu réttindi annarra að sjá hvort skattayfirvöld leggi rétta skatta á einstaklinga. Það eru vissulega góðir og mætir hagsmunir að leggja á rétta skatta en dugar það til að skerða megi friðhelgi einkalífs fólks?
Auk þess bendir Helgi á að heimild skattstjóra tekur ekki til þess að birta álagningarskrána heldur skattskrána, sem er hin endanlega skrá. Enn síður liggur nokkur heimild fyrir því uppátæki skattstjóra að taka saman lista yfir hæstu gjaldendur. Til að kóróna svo subbuskapinn í kringum þá birtingu þá hefur kennitala og heimilisfang þessa fólks verð látið fylgja. Líklega svo ekki fari á milli mála hverjum þakka ber höfðinglegt framlag til samneyslunnar.
Sannleikurinn er auðvitað sá að birting skrárinnar er ætlað að svala forvitni fólks um líf samborgara sinna og til að ala á tortryggni, öfund og óánægju – og hefur ekkert með eftirlit eða skynsamlega umræðu að gera. Það eru því miður hagsmunir sumra pólitískra afla í samfélaginu að ala á öfundinni, eins ógeðfellt og það nú er. Eða hví skyldi skatturinn, eða viðeigandi stjórnvald, ekki gefa út lista yfir þá sem þiggja bætur af hinu opinbera, fjárhæðir og tegund bóta? Bótasvik eru líklega jafn algeng og skattsvik. Sömu aðilar og réttlæta þetta brot á friðhelgi einkalífsins yrðu víst seint talsmenn slíkrar birtingar þó af sama meiði sé og álíka ósmekklegt.
(Birtisti fyrst á Eyjunni 24. júlí 2014)