Gott framtak Vilhjálms Árnasonar

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst á komandi þingi leggja fram fumvarp sem heimilar sölu áfengis í öðrum verslunum en Vínbúðum ÁTVR. Löngu er kominn tími til að afnema einokun ÁTVR á sölu áfengis. Best væri auðvitað að leggja niður smásöluverslun ÁTVR með öllu og færa í hendur einkaaðila.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni um þessa fyrirætlan Vilhjálms. Lítið hefur verið um mótbárur, nema hvað Ögmundur Jónasson hefur mótmælt og beitt fyrir sig gamalkunnum rökum öfgafullra vinstrimann um gróðaöfl. Rétt eins og sala áfengis sé með einhverjum hætti ekki eins siðlegt og sala á hvaða annarri vöru sem er.

Einkasala ÁTVR er fullkomin tímaskekkja, svona mjólkurbúðir samtímans, og ánægjulegt til þess að vita að útlit er fyrir að meirihluti þings styðji þessa tillögu. En jafnframt merkilegt að þeir sem gjarna telja sig talsmenn „frjálslyndis” eru ýmist hikandi í afstöðu sinni til málsins, eða hreinlega andsnúnir. Þannig kemur fram í frétt á visi.is að:

Öruggt þykir að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins styðji málið. Þingmenn Bjartrar framtíðar eru þó ekki einhuga í þessu máli en að minnsta kosti þrír koma til með að styðja það en einn er á móti. Píratar koma allir til með að styðja frumvarp Vilhjálms en aðeins einn þingmaður Samfylkingarinnar, aðrir sem fréttastofa náði tali af vildu ekki gefa upp afstöðu sína. Fjórir þingmenn Framsóknarflokksins koma til með að styðja málið og þrír munu greiða atkvæða gegn því. Aðrir gefa ekki upp afstöðu. Þá er búast við að þingflokkur Vinstri grænna muni greiða allur greiða atkvæði gegn frumvarpinu.

(Birtist fyrst á Eyjunni 3. ágúst 2014)

Comments are closed.

%d bloggers like this: