Skattar hafa áhrif á hegðun

Íslenska ríkið gekk nýlega frá samningi við Silicor Materials um smíð sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Í samningnum er ákvæði um, að fyrirtækið greiði 15% tekjuskatt. Þetta er merkileg frétt, eins og Morgunblaðið benti á í leiðara 2. október. Stjórnirnar 1991–2009 fylgdu markvisst þeirri stefnu að reyna að mynda hér fyrirtækjavænt umhverfi og komu tekjuskatti á fyrirtæki niður í 18%. Vinstri stjórnin hækkaði hann aftur upp í 20%. Er þetta ekki leiðsögn um, hvað við eigum að gera? Við ættum að lækka fyrirtækjaskatt niður í 15%, svo að hjól atvinnulífsins fari að snúast og fleiri fyrirtæki en Silicor Materials sjái sér hag í því að fjárfesta á Íslandi. En skatta á ekki að lækka með sérstækum ívilnunum, heldur almennum aðgerðum sem taka til allra.

(Birtist fyrst á Eyjunni 4. október 2014)

Óðinn Viðskiptablaðsins fjallar um þessi mál í grein frá 29. apríl og segir m.a.:

Markaðslausnin fyrir að efla nýfjárfestingu er að lækka skatta á allar fjárfestingar. Ef fyrirtæki veigra sér við að fjárfesta vegna hárra skatta þá er lausnin að lækka skatta almennt fremur en að fela stjórnvöldum vald til að veita útvöldum aðilum undanþágu og mismuna fjárfestum með þeim hætti. Nýfjárfesting hefur engu meiri efnahagslega þýðingu en fjárfesting annara fyrirtækja til að viðhalda sér, raunar er líklegra að fjárfesting fyrirtækja sem þegar hafa haslað sér völl skili sér í jákvæðu framlagi til hagvaxtar en nýfjárfesting, án þess þó að lítið sé gert úr framlagi nýrrar tækni. Jafnvel þótt við gefum okkur að framlag nýrrar tækni eða nýrra atvinnugreina til hagvaxtar sé mikið, þá eru líkurnar á því að hver einstök ný tækni eða hver ný atvinnugrein skili sér í hagvexti, sáralitlar. Í frjálsu hagkerfi er í sífellu verið að reyna nýja tækni og setja á fót nýjar atvinnugreinar, ríkið hefur ekki neinu hliðvarðarhlutverki að gegna þar. Þegar ríkið fer að hlutast til um hvaða tækni er reynd verða ekki til nein ný verðmæti, það eina sem ríkið gerir er að færa fjármuni til á milli fyrirtækja, frá þeim sem vegnar vel og eru því skattstofn til þeirra sem hljóta náð fyrir augum embættismanna eða geta ekki fjármagnað sig á markaði. Í markaðsbúskap er þessu öfugt farið, þar hagnast þau fyrirtæki sem mæta þörfum markaðarins og geta því fjárfest meira en óhagkvæm fyrirtæki tapa fé og heltast úr lestinni. Afskipti ríkisins eru til þess fallin að draga úr hagvexti.


(Birtist fyrst á Eyjunni 4. október 2014)

Comments are closed.

%d bloggers like this: