Rás 2 skotmark hryðjuverkamanna?

Fréttablaðið birtir grein eftir Hermann Stefánsson, rithöfund, sl. þriðjudag þar sem hann mótmælir hugmyndum um sparnað hjá Ríkisútvarpinu. Reyndar gagnrýnir höfundur greinarinnar það sem hann kallar reikningskúnstir, en leysir jafnframt fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins með bráðsnjöllum hætti:

Það tekur því ekki að blanda sér í reikningskúnstirnar að öðru leyti en því að nefna að ekkert bendir til annars en að það sé einfaldasta mál í heimi að bjarga fjárhag RÚV. Það er gert með því að láta allt útvarpsgjaldið renna til RÚV eins og því er ætlað að gera. Og með því að draga Ohf.-væðingu stofnunarinnar til baka og aflétta tilheyrandi lífeyrisskuldbindingum sem íþyngja rekstrinum.

Mikið þurfum við fleiri svona snillinga – við bara afléttum lífeyrisskuldbindingunum og málið er leyst. Vonandi að starfsmenn Ríkisútvarpsins fyrrverandi og núverandi samþykki þetta.

En þessi þvæla er þó ósköp ómerkileg miðað við niðurlag greinar Hermanns þar sem þessa setningu er að finna:

Að leggja niður útvarpsrás eru óafturkræf hryðjuverk.

Hvernig er hægt að taka svona til orða? Að skjóta niður farþegaflugvél er hryðjuverk, að ræna ungum konum og selja mansali er hryðjuverk, að skjóta niður óvopnað saklaust fólk er hryðjuverk. Eigum við að leggja hryðjuverk sem þessi að jöfnu við að leggja niður afþreyingu eins og Rás 2? Virkilega?  Lítilsigld er orðræða sem þessi og allt of algeng. Og oftar en ekki kemur hún frá fólki sem telur sig þess umkomið að vanda um við aðra.

(Birtist fyrst á Eyjunni 6. nóvember 2014)

Comments are closed.

%d bloggers like this: