Atvinnurekendur ánægðir í faðmi ríkisins

Kostulegt er að sjá umsögn Félags atvinnurekenda um frumvarp Vilhjálms Árnasonar, og nokkurra annarra þingmanna, sem afnemur einkasölu ríkisins á áfengi. Ætla mætti að Félags atvinnurekenda væri frá sér numið af hrifningu og að stuðningur þess við frumvarpið væri einlægur og eindreginn. En öðru nær;

Á frumvarpinu eru  alvarlegir annmarkar, sem hafa í för með sér að verði það samþykkt mun það á sumum sviðum þýða afturför hvað varðar aðgengi neytenda að þeirri neyzluvöru sem áfengi er. Enn fremur myndi  frumvarpið óbreytt hafa í för með sér afar íþyngjandi breytingar fyrir bæði framleiðendur og  innflytjendur áfengis, sem á endanum myndu koma niður á samkeppni, fjölbreytni, vöruframboði og verði á áfengismarkaði.

Ekki minnist ég þess að nokkur atvinnurekendasamtök hafi áður komist að þeirri merku niðurstöðu að áhrifin af afnámi einokunar ríkisins á sölu og dreifingu neysluvöru muni „koma niður á samkeppni, fjölbreytni, vöruframboði og verði á áfengismarkaði”. Athyglisvert ef rétt væri. Má hér greina eftirsjá eftir Viðtækjaverslun ríkisins? Einokunar á útvarpsmarkaði? Hvað með nýja síldarútvegsnefnd?

Lokaorð umsagnar Félags atvinnurekenda bæta ekki um betur:

Félagið leggur því ekki til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt, heldur að málið verði tekið upp að  nýju í heild og horft til mun fleiri þátta en þegar þetta frumvarp var samið. Þá er þess farið á leit að  sú endurskoðun verði unnin í samráði meðal annars við innflytjendur og framleiðendur áfengis,  atvinnufyrirtæki sem eiga mikilvægra hagsmuna að gæta að ekki séu gerðar vanhugsaðar breytingar  á starfsumhverfi þeirra. Það er hins vegar ljóst að til staðar er ómarkvisst og gerræðislegt bann við  áfengisauglýsingum sem vert er að nema úr gildi nú þegar.

Á venjulegri íslensku útleggst þetta þannig; aðilar innan Félags atvinnurekenda sem flytja inn ágengi kunna ágætlega við það að sitja að kjötkötlunum hjá ÁTVR. Þeir fá öruggar greiðslur og njóta þess að erfitt er að koma nýr inn á þennan markað. Svona frumvarp á því ekki að semja nema hagsmuna þeirra verði gætt sérstaklega svo þeim verði ekki kastað út í samkeppni án sérstakra forréttinda. En það er mikil skerðing á frelsi þeirra til að græða í gegnum náðarfaðm ríkisins að mega ekki auglýsa brennivín. Að þeirra áliti má auðvitað breyta því strax.

Greinargerð frumvarpsins er sérstaklega góður lestur og útlistar með góðum rökum hvers vegna tafarlaust á að afnema einokun ríkisins á sölu áfengis.

(Birtist fyrst á Eyjunni 7. nóvember 2014)

Comments are closed.

%d bloggers like this: