Bók Matts Ridleys, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist), er þörf og skemmtileg bók og góður lestur í skammdeginu. Hún er nauðsynlegt mótvægi við öllu svartagallsrausinu sem dunið hefur á okkur. Ég er ekki sá eini sem er hrifinn af henni. Ragnar Árnason prófessor segir: „Matt Ridley útskýrir framþróun mannkynsins með eignarrétti og viðskiptum og fetar með því í fótspor jöfra eins og Adams Smiths og Karls Marx. Bókin er afar upplýsandi.“ Þráinn Eggertsson prófessor segir: „Ridley fjallar einnig um dómsdagsáráttu mannskepnunnar og tískustrauma í heimsendaspám sem áður tengdust hefðbundnum trúarbrögðum en nú einnig raunvísindum. Höfundurinn leitar víða fanga, er afburðasnjall stílisti með ríkt skopskyn og ótrúlega fróður um þróun lífsins á jörðinni, mannkynssögu og nýjar rannsóknir í félags- og raunvísindum.“ Frosti Logason útvarpsmaður segir: „Vel rökstutt uppgjör við bábiljur og hjátrú fyrri tíðar og skær vonarglampi fyrir komandi kynslóðir.“
Dómsdagsspámenn hafa alltaf verið meðal okkar. Árið 1972 kom út bók, sem ég eignaðist einhverjum árum síðar, The Doomsday Syndrome eftir John Maddox. Þar er fjallað um þessa áráttu mannsins að telja fortíðina betri en framtíðina og láta ekki staðreyndir vefjast fyrir sér. Og árið 2010 kom út bókin Risk, The Science and Politics of Fear, eftir Dan Gardner sem fjallar um hversu erfitt við eigum með að meta áhættu. Hvernig við ofmetum áhættuna af því flugslysum, hryðjuverkum og annarri þeirri áhættu sem fær mikla fjölmiðlaumfjöllun, en vanmetum hins vegar áhættu sem stundum stendur okkur mun nær. Þannig er auðvelt á grundvelli lítilla eða lélegra gagna að sannfæra okkur um að allt sé að fara fjandans til.
Og Matt Ridley bætir um betur og sýnir okkur fram á að það er ástæða til að vera bjartsýnn um framtíðina, bjartsýnn fyrir hönd okkar, barna okkar og barnabarna. Það er sem sagt skynsamlegt að vera bjartsýnismaður.
(Birtist fyrst á Eyjunni 10. nóvember 2014)