Tillögur um hóflegan niðurskurð

Tillögur SUS um niðurskurð ríkisútgjalda og aukna tekjuöflun eru þess virði að skoða í kjölinn fyrir allt áhugafólk umfjármál hins opinbera. Helst mætti spyrja hvort nógu langt sé gengið.

Lækkun ríkisútgjalda samkvæmt tillögum SUS nemur reyndar aðeins 7,3%, eða 72,7 miljarða, og miðað við raunhækkun útgjalda síðastliðin 5 ár getur það varla talist nein ofraun. Og niðurskurðartillögurnar snerta varla á þeim þáttum sem helst kæmu niður á almenningi s.s. velferðar-, heilbrigðis- og menntamálum.

Niðurskurðurinn tekur fyrst og fremst á margs konar starfsemi sem alls ekki er sjálfgefið að ríkið standi að. Nú er einmitt full þörf á að ræða hlutverk ríkisins og forgangsatriði í starfsemi þess. Áralangt aðhaldsleysi er nú að koma okkur í koll og dýpkar og lengir kreppuna.

Þá gerir SUS ráð fyrir auknum tekjum ríkissjóðs með skattlagningu á lífeyrisgreiðslum og aukinni atvinnustarfsemi upp á 55 miljarða króna.

Loks vill SUS herða eftirfylgni með fjárlögum með því að beita forstöðumenn ríkisstofnana sem fara fram út fjárheimildum viðurlögum.

SUS getur þess ennfremur að Sjálfstæðisflokkurinn verði að biðjast afsökunar á sínum þætti í því að hafa stóraukið ríkisútgjöld á síðustu árum. Undir þetta tekur Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, í viðtali við Viðskiptablaðið nýlega. Fjárlög síðustu ára hafa ekki borið neinni frjálshyggju vitni, þvert á móti hefur ríkisvaldið þanist út. Allt tal um frjálshyggju og “nýfrjálshyggju” í þessu sambandi er auðvitað rakalaust þvættingur.

Nú er tíminn til að ræða af alvöru tillögur eins og SUS leggur fram, en ekki að leggja til takmarkaðan flatan niðurskurð, sem aldrei hefur skilað árangri.

(Birtist fyrst á Eyjunni 14. nóvember 2009)

Comments are closed.

%d bloggers like this: