Ríkisútvarpið „fjallar” um sparnaðartillögur SUS

Höf. 13, 11, 2009 0 , , Permalink 0

Í gær litu dagsins ljós athyglisverðar tillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna um sparnað í fjárlögum og jafnframt aukna tekjuöflun hins opinbera með skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Um er að ræða samantekt á 27 blaðsíðum.Fréttastofa RÚV byrjaði að fjalla um málið í kvöldfréttum klukkan sex í gær, fimmtudag,  og réðist strax á skýrslu SUS með rangfærslum. Jafnframt má benda á athyglisvert misræmi milli þess texta sem lá fyrir á netinu 18.21 og lesins texta í útvarpsfréttum klukkan sex.

RÚV segir m.a. að SUS hafi „horn í síðu neytendamála” og gefur til kynna að Siglingastofnun og Flugmálastjórn fái „að fjúka”. Og að Veðurstofan og Náttúrufræðistofnun „hljóta ekki ná fyrir augum ungra sjálfstæðismanna”. Eftir lestur skýrslu SUS og lestur fréttar RÚV er ljóst að annaðhvort hefur fréttarmaðurinn ekki lesið skýrslu SUS eða fer vísvitandi með rangt mál í vinnslu fréttarinnar.

Skýrt kemur fram í skýrslu SUS að gert er ráð fyrir lækkun á kostnaði vegna Veðurstofu, ekki að stofnunin hljóti ekki náð fyrir augum SUS. Siglingamálastofnun og Flugmálastjórn eru stofnanir sem SUS telur að reka megi af þjónustugjöldum, ekki að leggja beri þær niður. Hvergi kemur fram að sambandið hafi horn í síðu neytendamála. En sjálfstæði slíkra félaga fæst ekki með ríkisstyrkjum.

Í engu er getið um það í fréttinni að SUS vill leggja af allt ráðstöfunarfé ráðherra, spara í sendirráðum, leggja af styrki til atvinnurekendasamtaka, koma stofnunum af fjárlögum, án þess að leggja þær niður, og afla aukinna tekna með ýmsum ráðum.  Þá leggur SUS til að refsa megi stjórnendum ríkisstofnana sem ekki halda sig innan ramma fjárlaga.

Fréttin frá RÚV sýnir enn einu sinni að ekkert réttlætir skattgreiðslur til slíkrar áróðursmiðstöðvar.

(Birtist fyrst á Eyjunni 13. nóvember 2009 undir titlinum RÚV í áróðursham)

Comments are closed.

%d bloggers like this: